Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Mikilvægur kynningarfundur fyrir íbúa

Í Fréttablaðinu í dag birtist auglýsing frá Kópavogsbæ um kynningarfund um breytt skipulag á Kársnesi.

Fundurinn er haldinn til að íbúar á höfuðborgarsvæðinu geti kynnt sér tillögu bæjarins um 1.000 nýjar íbúðir og 13 ha landfyllingar á Kársnesi. Áhrifin verða stórfelld íbúafjölgun og gríðarleg umferðaraukning eins og áður hefur komið fram.

Fram hefur komið að mikil hætta er á að nýjar landfyllingar geti valdið lífríki Fossvogsins óafturkræfum skaða, en slíkt umhverfisslys yrði mikið áfall því Fossvogurinn er eins og allir vita ein helsta náttúru- og útivistarperla höfuðborgarsvæðisins.

Auglýsingin sem birtist í Fréttablaðinu í dag var lítið áberandi og villandi og er engu líkara en að Kópavogsbær sé að reyna að halda fundinn í kyrrþey. Það má alls ekki gerast.

Þetta er mjög mikilvægt mál fyrir Kársnesinga og alla höfuðborgarbúa. Þess vegna biðjum við þig að:

1) mæta á fundinn

2) hvetja nágranna þína og vini í hverfinu til að mæta

3) vekja athygli þeirra höfuðborgarbúa sem þú þekkir á fundinum (þetta er kynning fyrir allt höfuborgarsvæðið, ekki bara Kársnesinga)

ÞAÐ ER MJÖG MIKILVÆGT AÐ SEM FLESTIR MÆTI – KOMUM FOSSVOGINUM TIL BJARGAR.

Fundarstaður: Kársnesskóli við Vallargerði

Fundartími: Fimmtudagur 25. september kl. 20

 


Fréttir úr Kópavoginum

Kæru Kópavogsbúar


Á bæjarstjórnarfundi 23. september voru eftirfarandi mál einkum rædd fyrir utan smærri mál.  (Útvarp frá fundum bæjarstjórnar er á fm 98,3 og eru reglulegir fundir annan og fjórða þriðjudag hvers mánaðar og hefjast kl. 4.  Upptökur frá bæjarstjórnarfundum eru á heimasíðu bæjarins og getur verið ágætis skemmtun að hlusta á einn og einn fund t.d. við prjónaskap eða eldamennsku)

Leikskólamál:
Meirihlutinn hefur ákveðið að bjóða út rekstur nýs leikskóla við Aðalþing.  Fulltrúar Samfylkingarinnar í leikskólanefnd lögðust gegn þessari tillögu ásamt fulltrúa foreldra á þeim forsendum að byggingin sé hönnuð eftir leiðbeiningum leikskólafulltrúa. M.a. er tekið mið af þeim athugasemdum sem starfsmenn og foreldrar hafa gert við þær leikskólabyggingar sem hafa verið byggðar í bænum síðustu árin.  Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar töldu einnig að það væri mikilvægt að nýr leikskóli væri rekin af Kópavogsbæ sérstaklega í ljósi þess óstöðugleika sem verið hefur í leikskólamálum í Vatnsendanum síðustu misserin.  Það tekur tíma fyrir nýja leikskóla að festa sig í sessi og er starfsmannavelta yfirleitt meiri á nýjum leikskólum.  Af fenginni reynslu ætti bærinn að reka nýja leikskóla amk. fyrstu árin.

Málefni Goldfinger:
Enn einu sinni eru málefni næturklúbbsins Goldfinger til umræðu í bæjarstjórn.  Sem kunnugt er lagðist lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gegn því að sýslumaður endurnýjaði rekstrarleyfi Goldfinger og lagðist gegn því að þar færi fram nektardans m.a. með þeim rökum að oftlega sé starfsemi nektardansstaða tengd vændi og jafnvel mansali.  Ný lög frá 2007 banna nektardans en í þeim er undanþáguákvæði sem þýðir að rekstraraðilar nektarstaða geta sótt um undanþágu frá þessu banni að fenginni jákvæðri umsögn umsagnaraðila.  Dómsmálaráðuneytið vísaði umsögn lögreglustjóra til föðurhúsanna og taldi engin sannarleg rök gegn því að leggjast gegn því að veita Goldfinger undanþágu frá lögunum.
Í kjölfar þessa úrskurðar dómsmálaráðuneytisins ákvað meirihluti borgarstjórnar að heimila rekstur tveggja nektardansstaða í Reykjavík en hvatti alþingi til þess að skýra lögin og taka af allan vafa varðandi túlkunn þeirra.  Meirihlutinn i Kópavogi ákvað á svipuðum forsendum að leggjast ekki gegn því að sýslumaður endurnýjaði rekstrarleyfi Goldfinger en ákyktaði jafnframt að ekki væri pólitískur vilji til þess að í Kópavogi færi fram nektardans.  Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar tóku auðvitað undir þau sjónarmið, en hefðu viljað láta reyna á lagabókstafinn og hafna því alfarið, því greiddum við atkvæði gegn jákvæðri umsögn bæjarráðs, en lögðum fram tillögu um að hafna leyfinu. Hún var felld.

Íbúalýðræði og skipulagsmál
Nokkuð var rætt um íbúalýðræði í kjölfar háværra mómæla  bæjarbúa vegna nokkurra mála sem hafa verið í deiglunni undanfarið.  Þrenn íbúasamtök hafa verið stofnuð á kjörtímabilinu, til viðbótar þeim sem fyrir voru í bænum og hafa þau öll það markmið að berjast gegn fyrirhugaðri þéttingu byggðar á svæðum þar sem umferð og umhverfi ber ekki slíka þéttingu.  Má í því sambandi benda á að Kópavogsbær er með kynningu á breyttu svæðisskipulagi á Kársnesi í Kársnesskóla næsta fimmtudag kl 20:00.  Fundurinn hefur ekki verið auglýstur rækilega og er fyrirvarinn stuttur, en auðvitað þurfa Kópavogsbúar að mæta á þennan fund og kynna sér þetta gríðarlega stóra mál sem mun hafa áhrif á ásýnd og yfirbragð Kársnessins til allrar framtíðar verði það að veruleika.

Fjármál
Kópavogsbær tók í vor 30 milljóna evru lán til að endurfjármagna eldri og óhagstæðari lán bæjarins.  Nú var verið að samþykkja 15 milljónir evra í viðbót í þessum sama tilgangi.  Þetta þýðir á gengi dagsins í dag rúmlega 6 milljarða lántöku á þessu ári.  Hluti þessa láns mun einnig vera að hagræða eldri og óhagstæðari lánum, en einnig að breyta skammtímaskuldum í langtíma þar sem áætlanir gegnu ekki eftir er varðar skipulag í Vatnenda, Rjúpnahæð og svo auðvitað Glaðheima og á Kjóavöllum.  Áætlanir vegna þessara framkvæmda hafa einfaldlega ekki staðist.

Þróunarsjóður grunnskóla
Tveir skólar hafa á yfirstandandi kjörtímabili sótt um styrki vegna þróunarverkefna í bæjarsjóð Kópavogs.  Verulegur ágreiningur hefur komið upp í bæjarráði og bæjarstjórn um meðferð umsóknanna og Samfylkingin hefur gagnrýnt meirihlutann harðlega fyrir ófagleg vinnubrögð og að jafnræðis hafi ekki verið gætt. Í kjölfarið dustuðum við rykið af gamalli tillögu okkar sem við höfum lagt ítrekað fram er varðar stofnun vísindasjóðs skólanna í bænum.  Í þann sjóð geti leik- og grunnskólakennarar sótt styrk fyrir þróunarverkefnum og nýsköpun í skólastarfi þar sem sérstök stjórn sjóðsins skipuð fagfólki úthlutar styrkjum árlega.  Bæjarstjórn ákveður við gerð fjárhagsáætlunar ár hvert hversu miklu fjármagni verður varið í sjóðinn á ári.  Sjóður sem þessi myndi tryggja sanngjarna og faglega meðferð styrkumnsókna því auðvitað eiga styrkveitingar bæjarráðs vegna nýbreytni í skólastarfi ekki að vera háðar geðþóttaákvörðunum kjörinna fulltrúa.  Meirihlutinn hafnaði þessari tillögu okkar.

Að lokum er minnt á fundi Samfylkingarinnar í Kópavogi sem haldnir eru sérhvert mánudagskvöld kl. 20:30 í Hamraborg 11, 3. hæð. Verið velkomin.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband