Leita í fréttum mbl.is

Ávarp frá Guðríði Arnardóttur, oddvita Samfylkingarinnar í Kópavogi

Kæru félagar!

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um stöðuna í þjóðfélaginu eins og hún er í dag, þær hamfarir sem nú ríða yfir eru efstar í hugum flestra.  Það er óveður í aðsigi, óveður sem er ekki skollið á og eins og alltaf þegar við eigum von á stormi, notum við tímann og treystum varnir okkar svo skaðinn verði sem minnstur.  Það er einmitt það sem stjórnmálamenn landsins eru að vinna að í dag.  Það er viðbúið að hlutverk sveitarfélaganna á komandi misserum verði gríðarlega mikilvægt.  Hlutverk alþingis verður að skapa jarðveg þeirrar uppbyggingar sem er framundan í íslensku samfélagi en það verða sveitafélögin nú sem fyrr sem tryggja nærþjónustuna í samfélaginu.  Það er okkar að tryggja grunnþjónustuna við heimilin í bænum, búa svo um hnútana að stofnanir bæjarins verði í stakk búnar til að styðja og styrkja þá sem eiga um sárt að binda á komandi mánuðum.

Það er okkar að tryggja að grunnþjónusta við bæjarbúa skerðist sem minnst þrátt fyrir fjárhagslega erfiðleika.  Það er að mörgu að hyggja og við eins og þið kæru félagar, við erum enn að safna vopnum okkar.  Á meðan rykið er að setjast þurfum við að átta okkur á stöðunni og ná utan um þá fjölmörgu þætti sem þarf að huga að á næstunni.  Það er erfitt að meta á þessari stundu hver fjárhagsstaða bæjarins er. Skuldir bæjarins eru í nokkrum mæli í erlendri mynt og þegar gengið er svona óstöðugt getur sú staða breyst talsvert frá degi til dags.  Á komandi ári munu tekjur bæjarins dragast saman um leið og væntanleg útgjöld munu aukast svo það verður vandasamt verk að láta enda ná saman í fjárhagsáætlun næsta árs.

Það hefur verið áfall fyrir bæjarsjóð, hversu mörgum lóðum hefur verið skilað til baka, en skv. samningum fá þeir sem það gera lóðaleigugjöld endurgreidd og vísitölubætt.  Nú er útlit fyrir að meirihluta lóðanna í Vatnsendahlíðinni verði skilað inn og því hafa áætlanir varðandi tekjur af yfirtökugjöldum algjörlega brugðist.  Smáragaður hefur auk þess skilað sínum lóðum á Glaðheimareitnum, en þar má telja bakfærðar tekjur upp á rúma tvo milljarða.

Það er ljóst að staðan er erfið og líklega er óvissan um framhaldið erfiðari.  Eitt get ég þó fullvissað ykkur um að Kópavogur mun standast þessa ágjöf, það var fyllilega borð fyrir báru áður en þessi ósköp öll dundu yfir, við erum ekki í erfiðleikum með lausafé og til að taka af allan vafa munu allir starfsmenn bæjarins fá greidd laun um næstu mánaðamót!  Við munum reyna eins og kostur er að draga ekki úr grunnþjónustu við bæjarbúa.

En þótt staðan sé vissulega þung gæti hún svo sannarlega verið verri.  Við getum huggað okkur við að við erum ekki að sjá á eftir ástvinum okkar í stríð óviss um hvort þeir komi heilir heim.  Við erum ekki að glíma við farsótt sem leggur þorra þjóðarinnar að velli eins og forfeður okkar glímdu við á fyrri öldum.  Og við erum ekki að taka afleiðingum náttúruhamfara með mannfalli, uppskerubresti og hungursneið.

En þetta er áfall og það erfitt að missa vinnuna, ævisparnaðinn eða heimilið og margir munu eiga um sárt að binda á komandi mánuðum.

Og því er það á tímum sem þessum sem við þurfum að rækta það góða í sjálfum okkur og á milli okkar.  Þegar mest á reynir trúi ég því að það verði bræðralagið sem komi okkur í gegnum þrengingarnar, samhjálpin og stuðningurinn hvert við annað.

Það er víst ekki ofsögum sagt að hingað til hefur engin lognmolla svifið yfir vötnum í Kópavogi.  Hér gárar iðulega og oft hvessir og harkalega tekist á þegar tilefni er til.  En nú er ekki tími átaka og pólitískra hnútukasta, nú er tíminn til að snúa bökum saman.  Nú er ekki tíminn til að deila um hvort grasbalarnir í bænum eigi að vera fleiri eða færri, eða hvort húsin eigi að vera lægri eða hærri.

Ég fullvissa ykkur kæru félagar að við munum nú sem fyrr standa vaktina og fylgjast með hagsmunum bæjarbúa í nefndum og ráðum bæjarins, en við munum reyna að stilla málflutningi okkar í hóf í þeirri von að okkur takist að vinna með meirihlutanum á komandi mánuðum.  Ég trúi því að það sé bæjarbúum fyrir bestu ef öllum flokkum í bæjarstjórn lánast að vinna saman á þessum erfiðu tímum, við gerð fjárhagsáætlunar og mótun aðgerðaáætlana vegna þeirra fjölmörgu verkefna sem krefjast úrlausnar.  Á bæjarstjórnarfundi í gær réttum við fram sáttarhönd og fengum jákvæðar undirtektir meirihlutans.  Í framhaldinu vona ég að við verðum vel upplýst um stöðu mála frá degi til dags og fáum tækifæri til þess að koma sjónarmiðum Samfylkingarinnar að í þeirri miklu vinnu sem framundan er.

Við bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar erum ætíð til taks og nú er rétt að ítreka við ykkur að hafa samband ef þið teljið að við getum á einhvern hátt aðstoðað ykkur ef erfiðleikar steðja að.  Að lokum vil ég minna ykkur á að það sem við jafnaðarmenn kunnum og gerum best er að styðja og styrkja hvert annað.

Kærar kveðjur til ykkar allra,

Guðríður Arnardóttir

oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband