Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Ávarp frá formanni flokksins í tilefni sumardagsins fyrsta

Kæru félagar !

Sumarið er gengið í garð. Harður vetur er að baki og ég hygg að sjaldan eða aldrei hafi landsmenn þráð sólrisuna og vorilminn meira en um þessar mundir. Erfiðleikar undanfarinna mánaða hafa snert okkur öll og þeir hafa reynt á stoðir samfélagsins. Þjóðin þráir uppgjör, endurmat gilda og umfram allt von um réttláta leið endurreisnar úr úr erfiðleikunum. Kosningarnar á laugardaginn munu marka mikilvæg tímamót. Kosningarnar eru farvegur fyrir þjóðina til að gera upp við þá hugmyndafræði sem kallaði yfir okkur hremmingar vetrarins en ekki síður ögurstund varðandi þá vegferð sem þjóðin velur sér í uppbyggingunni eftir hrunið. Í öllu tilliti eigum við Samfylkingarfólk, nestuð með hinum klassísku gildum jafnaðarstefnunnar um frelsi, jafnrétti og bræðralag, brýnt erindi við þjóðina við þessar aðstæður.

Við getum verið stolt af verkum okkar í ríkisstjórn síðustu tvö árin. Áherslur okkar í velferðarmálum, ekki síst í málefnum barna, lífeyrisþega og fatlaðra, sem og viðsnúningur ríkisins í húsnæðismálum, skattamálum, jafnréttismálum, umhverfismálum, lýðræðismálum og stórhækkaðar barna- og vaxtabætur segja í raun allt sem segja þarf um mikilvægi þess að Samfylkingin sé við stjórnvölin. Á tveimur árum hefur okkur tekist að sýna svart á hvítu að það skiptir máli hverjir stjórna í þessum efnum.

Við getum ekki síður verði stolt af þeirri ábyrgu og árangursríku forystu sem Samfylkingin hefur tekið í björgunaraðgerðum og endurreisnarstarfinu eftir bankahrunið. Þar hefur Samfylkingin verið sú kjölfesta sem þjóðin þurfti og ein flokka verið staðföst og einhuga um að marka þjóðinni raunhæfa leið út úr erfiðleikunum. Þrátt fyrir úrtöluraddir og erfið boðaföll hefur Samfylkigin ein flokka staðið í lappirnar og frá fyrsta degi mótað, komið á og fylgt eftir þeirri endurreisnaráætlun sem nú er unnið eftir í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og alþjóðasamfélagið. Það þarf oft á tíðum sterk bein til að verja slíka áætlun í ólgusjó stjórnmálanna í aðdraganda kosninga, en þá staðfestu höfum við sannarlega sýnt á undanförnum dögum og vikum. Af þeirri staðfestu okkar er ég afar stolt.

Síðast en ekki síst getum við verið afar stolt af málefnalegu og skýru framlagi okkar til kosningabaráttunnar með því að leggja fram, ein flokka, heildstæða áætlun um hvernig við sjáum fyrir okkur að íslenskt efnahagslíf verði endurreist og stöðugleiki og velsæld tryggð til framtíðar. Í þeim efnum eru aðildarviðræður við ESB og í kjölfarið þjóðaratkvæðagreiðsla um niðurstöðu þeirra samninga lykilatriði. Aðeins með slíkum formlegum aðildarviðræðum fæst úr því skorið hvort ekki tekst með aðstoð ESB að tryggja stöguleika krónunnar þar til Evran yrði tekin upp, tryggja full yfirráð okkar yfir auðlindum okkar og lífvænleg vaxtarskilyrði fyrir atvinnulífið, ekki síst sjávarútveg og landbúnað. Í mínum huga er þetta eitt af brýnustu verkefnum næstu ríkisstjórnar og verði ég í forystu þeirrar ríkisstjórnar mun það leitt til lykta með farsælum hætti.

Kæru félagar !

Kosningarnar á laugardaginn verða sögulegar. Valdakerfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er hrunið og í fyrsta sinn á Íslandi eygjum við möguleikann á að jafnaðarmannaflokkur verði leiddur til forystu, sem stærsti flokkur landsins. Verði það raunin bíður okkar það mikilvæga verkefni að leiða endurreisnina næstu árin og byggja upp samfélag jöfnuðar, réttlætis og samheldin að norrænni fyrirmynd. Við fáum tækifæri til að tryggja íslenskum heimilum og fyrirtækjum efnahagslegar aðstæður eins og þær gerast bestar í Evrópu með aðildarviðræðum við ESB og upptökum Evru og forða Íslandi þannig frá einangrun og afturför í efnahagslegu tilliti.

Við höfum tvo daga til að láta þennan draum rætast. Tvo daga til að gera öllum ljóst sem enn eru í vafa, ekki síst í okkar nánasta umhverfi, að framtíðin mun ráðast næsta laugardag. Sigur okkar er fjarri því að vera sjálfgefinn eins og skoðanakannanir sýna, en hann er vel mögulegur ef við leggjumst öll á eitt. Við höfum allt sem til þarf og getum gengið stolt til verka næstu 48 klukkustundirnar.

Um leið og ég þakka fyrir mikilvægt framlag ykkar síðustu daga óska ég öllu Samfylkingarfólki gleðilegs sumars og glæsilegs sigurs í komandi kosningum.

Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar


Hvatning frá Árna Páli

Ágætu félagar. Nú er komið að lokaspretti kosningabaráttunnar. Við mælumst sterk í könnunum. Samt er ekkert í hendi um að okkur takist að leika lykilhlutverk við ríkisstjórnarmyndun í næstu viku eða tryggja framgang okkar helstu baráttumála. Við verðum að tryggja Samfylkingunni yfirburðastöðu í íslenskum stjórnmálum sem gerir okkur kleift að ákveða hvaða mál eru tekin á dagskrá og hvernig. Við þurfum að koma Lúðvíki í öruggt þingsæti. Við eigum möguleika á því í fyrsta sinn að verða stærsti flokkurinn í þessu kjördæmi. Ef það tekst eru það stórpólitísk tíðindi sem marka vatnaskil í íslenskum stjórnmálum.  Til að okkur takist ætlunarverk okkar þurfum við að ná til kjósenda af miklum krafti á næstu dögum. Við þurfum að útskýra að ef við verðum ekki í lykilstöðu er óvíst um framgang aðildarumsóknar. Við þurfum líka að benda á að engum flokki er betur treystandi fyrir því að farið verði bil beggja – ekki leið taumlausrar skattheimtu og ekki leið óhefts niðurskurðar sem leiðir til fjöldauppsagna opinberra starfsmanna. Við ætlum að gera Jóhönnu Sigurðardóttur að forsætisráðherra.  Til þessara verka vantar okkur kraft ykkar allra. Það þarf að ganga í hús, dreifa bæklingum við verslunarmiðstöðvar, hringja í kjósendur. Þið þurfið líka hvert og eitt að hafa samband við vini og vandamenn og leita eftir stuðningi. Nú eru engir kjósendur öruggir kjósendur annarra flokkar. Nú er allt mögulegt. Okkar er að grípa tækifærið. Ég bið ykkur öll að hafa samband í síma 898 3060 eða kraginn@xs.is og bjóða fram krafta ykkar á næstu dögum. Við þurfum á öllu okkar að halda næstu daga. Þeir koma ekki aftur og við skulum ekki iðrast þess á sunnudag að hafa ekki nýtt krafta okkar til fulls. Bestu kveðjur,Árni Páll Árnason Ps. Minni á styrktarnúmer kjördæmisins 908 7705. Símtalið kostar 1.079 krónur. Margt smátt gerir eitt stórt.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband