27.1.2009 | 00:39
Ályktun Samfylkingarfélagsins í Kópavogi
Við höfum of lengi búið við deyfð og verkkvíða Sjálstæðisflokksins. Verkefnin í landsstjórninni eru ærin og það þarf fumlausa starfssama stjórn til að hrinda í framkvæmd fjölmörgum aðgerðum til bjargar heimilum og fyrirtækjum í landinu. Samfylkingunni er best treystandi til forystu í slíkri stjórn.
Rétt er að minna á að Samfylkingin í Kópavogi heldur fundi á hverju mánudagskvöldi. Þeir eru í Hamraborg 11, 3. hæð og hefjast kl. 20:30
Við hvetjum Kópavogsbúa til að taka þátt í öflugu starfi flokksins og hafa áhrif á stefnumótun.
Stjórnin
2.12.2008 | 22:44
Aðventukaffi í Kópavogi
Samfylkingin í Kópavogi býður eldri borgurum í aðventukaffi laugardaginn 6. desember kl 10 í félagsheimili Samfylkingarinnar í Kópavogi að Hamraborg 11. Góðar veitingar verða í boði og notaleg aðventustemning í húsinu.
Gestgjafi dagsins er Katrín Júlíusdóttir alþingismaður en auk hennar koma fram Árni Páll Árnason, alþingismaður auk þess sem Guðmundur Andri Thorson og Hallgrímur Helgason lesa upp úr nýútkomnum bókum sínum.
Kaffiboðið hefst kl. 10:00 og verða bílferðir frá Gullsmára og Gjábakka.
Allir velkomnir.
20.11.2008 | 05:36
Ályktun frá Stjórn Samfylkingarfélagsins í Kópavogi
Nauðsynlegt er að fá óháða aðila, sem njóta trausts á alþjóðavettvangi, til að rannsaka skipsbrot efnahagslífsins og hverjir beri þar ábyrgð. Brýnt er að skipta um stjórnendur í Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu til að endurvekja traust almennings og alþjóðasamfélagsins á íslenskum stjórnvöldum.
Stjórn félagsins kallar jafnframt á tafarlausa umsókn um aðild að Evrópusambandinu og evrópska myntsamstarfinu í kjölfarið.
-Stjórn Samfylkingarfélagsins í Kópavogi
16.10.2008 | 00:30
Ávarp frá Guðríði Arnardóttur, oddvita Samfylkingarinnar í Kópavogi
Það þarf ekki að fara mörgum orðum um stöðuna í þjóðfélaginu eins og hún er í dag, þær hamfarir sem nú ríða yfir eru efstar í hugum flestra. Það er óveður í aðsigi, óveður sem er ekki skollið á og eins og alltaf þegar við eigum von á stormi, notum við tímann og treystum varnir okkar svo skaðinn verði sem minnstur. Það er einmitt það sem stjórnmálamenn landsins eru að vinna að í dag. Það er viðbúið að hlutverk sveitarfélaganna á komandi misserum verði gríðarlega mikilvægt. Hlutverk alþingis verður að skapa jarðveg þeirrar uppbyggingar sem er framundan í íslensku samfélagi en það verða sveitafélögin nú sem fyrr sem tryggja nærþjónustuna í samfélaginu. Það er okkar að tryggja grunnþjónustuna við heimilin í bænum, búa svo um hnútana að stofnanir bæjarins verði í stakk búnar til að styðja og styrkja þá sem eiga um sárt að binda á komandi mánuðum.
Það er okkar að tryggja að grunnþjónusta við bæjarbúa skerðist sem minnst þrátt fyrir fjárhagslega erfiðleika. Það er að mörgu að hyggja og við eins og þið kæru félagar, við erum enn að safna vopnum okkar. Á meðan rykið er að setjast þurfum við að átta okkur á stöðunni og ná utan um þá fjölmörgu þætti sem þarf að huga að á næstunni. Það er erfitt að meta á þessari stundu hver fjárhagsstaða bæjarins er. Skuldir bæjarins eru í nokkrum mæli í erlendri mynt og þegar gengið er svona óstöðugt getur sú staða breyst talsvert frá degi til dags. Á komandi ári munu tekjur bæjarins dragast saman um leið og væntanleg útgjöld munu aukast svo það verður vandasamt verk að láta enda ná saman í fjárhagsáætlun næsta árs.
Það hefur verið áfall fyrir bæjarsjóð, hversu mörgum lóðum hefur verið skilað til baka, en skv. samningum fá þeir sem það gera lóðaleigugjöld endurgreidd og vísitölubætt. Nú er útlit fyrir að meirihluta lóðanna í Vatnsendahlíðinni verði skilað inn og því hafa áætlanir varðandi tekjur af yfirtökugjöldum algjörlega brugðist. Smáragaður hefur auk þess skilað sínum lóðum á Glaðheimareitnum, en þar má telja bakfærðar tekjur upp á rúma tvo milljarða.
Það er ljóst að staðan er erfið og líklega er óvissan um framhaldið erfiðari. Eitt get ég þó fullvissað ykkur um að Kópavogur mun standast þessa ágjöf, það var fyllilega borð fyrir báru áður en þessi ósköp öll dundu yfir, við erum ekki í erfiðleikum með lausafé og til að taka af allan vafa munu allir starfsmenn bæjarins fá greidd laun um næstu mánaðamót! Við munum reyna eins og kostur er að draga ekki úr grunnþjónustu við bæjarbúa.
En þótt staðan sé vissulega þung gæti hún svo sannarlega verið verri. Við getum huggað okkur við að við erum ekki að sjá á eftir ástvinum okkar í stríð óviss um hvort þeir komi heilir heim. Við erum ekki að glíma við farsótt sem leggur þorra þjóðarinnar að velli eins og forfeður okkar glímdu við á fyrri öldum. Og við erum ekki að taka afleiðingum náttúruhamfara með mannfalli, uppskerubresti og hungursneið.
En þetta er áfall og það erfitt að missa vinnuna, ævisparnaðinn eða heimilið og margir munu eiga um sárt að binda á komandi mánuðum.
Og því er það á tímum sem þessum sem við þurfum að rækta það góða í sjálfum okkur og á milli okkar. Þegar mest á reynir trúi ég því að það verði bræðralagið sem komi okkur í gegnum þrengingarnar, samhjálpin og stuðningurinn hvert við annað.
Það er víst ekki ofsögum sagt að hingað til hefur engin lognmolla svifið yfir vötnum í Kópavogi. Hér gárar iðulega og oft hvessir og harkalega tekist á þegar tilefni er til. En nú er ekki tími átaka og pólitískra hnútukasta, nú er tíminn til að snúa bökum saman. Nú er ekki tíminn til að deila um hvort grasbalarnir í bænum eigi að vera fleiri eða færri, eða hvort húsin eigi að vera lægri eða hærri.
Ég fullvissa ykkur kæru félagar að við munum nú sem fyrr standa vaktina og fylgjast með hagsmunum bæjarbúa í nefndum og ráðum bæjarins, en við munum reyna að stilla málflutningi okkar í hóf í þeirri von að okkur takist að vinna með meirihlutanum á komandi mánuðum. Ég trúi því að það sé bæjarbúum fyrir bestu ef öllum flokkum í bæjarstjórn lánast að vinna saman á þessum erfiðu tímum, við gerð fjárhagsáætlunar og mótun aðgerðaáætlana vegna þeirra fjölmörgu verkefna sem krefjast úrlausnar. Á bæjarstjórnarfundi í gær réttum við fram sáttarhönd og fengum jákvæðar undirtektir meirihlutans. Í framhaldinu vona ég að við verðum vel upplýst um stöðu mála frá degi til dags og fáum tækifæri til þess að koma sjónarmiðum Samfylkingarinnar að í þeirri miklu vinnu sem framundan er.
Við bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar erum ætíð til taks og nú er rétt að ítreka við ykkur að hafa samband ef þið teljið að við getum á einhvern hátt aðstoðað ykkur ef erfiðleikar steðja að. Að lokum vil ég minna ykkur á að það sem við jafnaðarmenn kunnum og gerum best er að styðja og styrkja hvert annað.
Kærar kveðjur til ykkar allra,
Guðríður Arnardóttir
oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi
24.9.2008 | 22:49
Mikilvægur kynningarfundur fyrir íbúa
Í Fréttablaðinu í dag birtist auglýsing frá Kópavogsbæ um kynningarfund um breytt skipulag á Kársnesi.
Fundurinn er haldinn til að íbúar á höfuðborgarsvæðinu geti kynnt sér tillögu bæjarins um 1.000 nýjar íbúðir og 13 ha landfyllingar á Kársnesi. Áhrifin verða stórfelld íbúafjölgun og gríðarleg umferðaraukning eins og áður hefur komið fram.
Fram hefur komið að mikil hætta er á að nýjar landfyllingar geti valdið lífríki Fossvogsins óafturkræfum skaða, en slíkt umhverfisslys yrði mikið áfall því Fossvogurinn er eins og allir vita ein helsta náttúru- og útivistarperla höfuðborgarsvæðisins.
Auglýsingin sem birtist í Fréttablaðinu í dag var lítið áberandi og villandi og er engu líkara en að Kópavogsbær sé að reyna að halda fundinn í kyrrþey. Það má alls ekki gerast.
Þetta er mjög mikilvægt mál fyrir Kársnesinga og alla höfuðborgarbúa. Þess vegna biðjum við þig að:
1) mæta á fundinn
2) hvetja nágranna þína og vini í hverfinu til að mæta
3) vekja athygli þeirra höfuðborgarbúa sem þú þekkir á fundinum (þetta er kynning fyrir allt höfuborgarsvæðið, ekki bara Kársnesinga)
ÞAÐ ER MJÖG MIKILVÆGT AÐ SEM FLESTIR MÆTI KOMUM FOSSVOGINUM TIL BJARGAR.
Fundarstaður: Kársnesskóli við Vallargerði
Fundartími: Fimmtudagur 25. september kl. 20
Myndaalbúm
Tenglar
Bæjarfulltrúar í Kópavogi
Stjórn Samfylkingarinnar í Kópavogi
- Ýr Gunnlaugsdóttir Formaður
- Tjörvi Dýrfjörð Varaformaður
- Þorsteinn Ingimarsson Gjaldkeri
- Margrét Júlía Rafnsdóttir Ritari
- Kristín Sævarsdóttir Spjaldskrárritari
- Guðrún Jóna Jónsdóttir Varamaður
- Sigurður M. Grétarsson Varamaður
- UJ Kópavogi Félag ungra jafnaðarmanna í Kópavogi
- Samfylkingin
Jafnaðarmenn víðsvegar
- Socialdemokratiska Arbetareparti Socialdemokratiska Arbetareparti í Svíþjóð
- Socialdemokraterne Socialdemokraterne Danmörku
- Arbeiderpartiet Arbeiderpartiet Noregi
- Sosialidemokraattinen Puolue (SDP) Sosialidemokraattinen Puolue (SDP) í Finnlandi
- Parti-socialiste Franski sósíalistaflokkurinn
- Parti Socialiste (Belgium) Sósíalistaflokkur Belgíu
- Partido Socialista de Chile Sósíalistar í Chile
- Sozialdemokratische Partei Deutschlands Þýskir jafnaðarmenn
- Sandinista National Liberation Front Sandinistar í Nicaragua
- Partido Socialista Obrero Español Spánskir sósíalistar
Bækur
Jafnvægi og framfarir
Ábyrg efnahagsstefna
-
Lífsgæði
Stefna Samfylkingarinnar í málefnum eldri borgara -
Fagra Ísland
Tillögur Samfylkingarinnar um að styrkja stöðu náttúru- og umhverfisverndar á Íslandi -
Unga Ísland
Aðgerðaáætlun Samfylkingarinnar í málefnum barna og ungmenna -
Jafnvægi og framfarir
Ábyrg efnahagsstefna -
Frjóa Ísland
Mennningarstefna Samfylkingarinnar